Knattspyrnumaðurinn Moussa Sissoko ætlar að höfða mál gegn Breska götublaðinu The Sun, fyrir frétt sem birtist í morgun.
Sissoko flutti frá London í sumar og gekk í raðir Nantes í heimalandinu. Hann lék með Tottenham og Watford og var búsettur í London í sex ár.
Í morgun sagði The Sun frá því að Sissoko hafi ekki borgað rafmagnsreikninga sína í 500 milljóna króna íbúð sinni í London. Hann skuldaði það sem nemur rúmum tíu milljónum íslenskra króna vegna þess.
Sissoko segir fréttina hins vegar ranga í færslu á Twitter-reikningi sínum.
„Þið hafið notað nafn mitt og mynd af mér vegna máls sem tengist mér ekki. Þið hafið ekki fengið þessar upplýsingar staðfestar og þetta er að valda mér og fjölskyldu minni skaða,“ skrifar Frakkinn.
Þá staðfestir Sissoko að hann muni leita réttar síns.
„Ég er að höfða mál gegn ykkur og réttlætið mun koma í ljós.“