Það kom upp óhugnanlegt atvik í leik RB Salzburg og Chelsea í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fyrrakvöld. Miðvörðurinn Thiago Silva hjá Chelsea skall þá til jarðar.
Chelsea vann leikinn 1-2 í Austurríki. Mateo Kovacic og Kai Havertz gerðu mörk enska liðsins, sem nú er komið í 16-liða úrslit. Junior Adamu skoraði mark Salzburg, sem nú þarf að sigra AC Milan á útivelli í lokaleik riðilsins til að fara áfram.
Það var í stöðunni 1-2 þegar Silva lenti harkalega í jörðinni eftir viðskipti við Roko Simic, leikmann heimamanna. Brasilíumaðurinn lenti á hálsinum og ljóst að mun verr hefði getað farið.
Sem betur fer fyrir Chelsea og Silva gat miðvörðurinn staðið aftur upp og klárað leikinn.
Myndband af atvikinu má sjá hér neðar.