Thibaut Courtois, markvörður Real Madrid, baunaði á liðsfélaga sína eftir leik við RB Leipzig í Meistaradeildinni.
Real er búið að tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum en tapaði 3-1 gegn Leipzig í gær sem var um leið fyrsta tap liðsins á tímabilinu.
Courtois var alls ekki hrifinn af varnarleik liðsins í leiknum en Real á nú í hættu á að enda í öðru sæti riðilsins.
,,Stundum erum við sofandi, við erum ekki aggressívir og alls ekki ákafir og gegn liði eins og Leipzig þá er okkur refsað,“ sagði Courtois.
,,Stjórinn varaði okkur við að þeir hefðu skorað mörg mörk á heimavelli í síðustu fimm leikjum en þrátt fyrir það fór þetta úrskeiðis.“
,,Það getur ekki verið að þeir hafi skorað tvö mörk úr tveimur hornspyrnum og að við höfum varist svo illa í seinna markinu. Í seinni hálfleik gerðum við mörg mistök og þetta var ekki góður leikur.“
,,Þriðja markið á lokamínútunum er það sem drepur þig. Þeir unnu öll einvígi og vörnin var virkilega léleg.“