Kasper Schmeichel var frábær í mark Leicester City í mörg ár en gerði gerði samning við franska félagið Nice í sumar.
Schmeichel var í guðatölu hjá stuðningsmönnum Leicester og vann deildina með liðinu árið 2016.
Stuðningsmenn Nice eru þó ekki á sama máli og eru alls ekki ánægðir með danska markmanninn og hans frammistöðu.
Franskir miðlar greina frá því að baulað hafi verið á Schmeichel í gær er Nice gerði 1-1 jafntefli við Nantes í efstu deild.
Er nafn Schmeichel var lesið upp fyrir leik heyrðust alls konar köll en varamarkmaðurinn Marcin Bulka fékk öðruvísi móttökur.
Stuðningsmenn Nice fögnuðu mikið er nafn Bulka var kallað í hátalarakerfinu og vilja augljóslega sjá hann verja markið í næstu leikjum.
Schmeichel hefur ekki þótt standast væntingar hjá Nice og fékk til að mynda fjóra af tíu í einkunn fyrir leikinn í gær.