Ólafur Karl Finsen hefur ekki verið í leikmannahópi Stjörnunnar í síðustu tveimur leikjum og er hættur af persónulegum ástæðum.
Ólafur sem er uppalinn í Garðabæ er samningslaus eftir tímabilið, ljóst er að hann verður ekki í Garðabænum á næstu leiktíð.
„Hann hættir út af persónulegum ástæðum,“ sagði Ágúst Gylfason þjálfari Stjörnunnar í samtali við 433.is í dag.
Ólafur snéri aftur til Stjörnunnar í fyrra en hann hafði spilað með Val og FH áður en hann kom aftur í Garðabæinn. Hann hefur verið orðaður við ÍBV í Bestu deildinni.
Ágúst segir Stjörnuna vera byrjaða að skoða næsta tímabil og hvar sé hægt að styrkja liðið. Hilmar Árni Halldórsson meiddist alvarlega í aðdraganda móts en er á góðum batavegi og byrjaður að æfa.
Heiðar Ægisson rifti samningi sínum við Val og er líklega á leið aftur í Stjörnuna. „Hann er okkar maður, hann var í Stjörnunni þegar það gekk vel og við skoðum það klárlega,“ sagði Ágúst.
Þá er Þórarinn Ingi Valdimarsson að verða samningslaus í Garðabæ. „Þórarinn Ingi er flottur leikmaður og við viljum halda honum,“ sagði Ágúst um það hvort honum verði boðinn nýr samningur.