Robin Gosens, leikmaður Inter Milan, viðurkennir að hann sé ekki að upplifa bestu tímana eftir að hafa skrifað undir hjá félaginu í sumar.
Þessi 28 ára gamli bakvörður spilaði með Inter í síðustu viku gegn Barcelona og skoraði mark er liðið gerði 3-3 jafntefli í Meistaradeildinni.
Þjóðverjinn kom inná sem varamaður á 76. mínútu og skoraði mark á þeirri 89. en stuttu seinna var Robert Lewandowski búinn að jafna metin fyrir þá spænsku.
Gosens hefur hingað til aðeins tekið þátt í 13 leikjum fyrir Inter oftar en ekki sem varamaður eftir mörg frábær ár hjá Atalanta þar sem hann lék frá 2017 til 2022.
,,Markmiðið mitt er klárlega að fá að spila meira. Þetta er ekki auðvelt fyrir mig persónulega,“ sagði Gosens.
,,Ég legg hart að mér og er mjög ánægður með að gera hjálpað liðinu. Við erum ánægðir með úrslitin.“
,,Við vitum að Barcelona er alltaf í stöðu til að skora mark með framherja eins og Robert Lewandowski en við sáum frábært lið Inter.“