Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United, hafði engan áhuga á að ræða stöðu framherjans Cristiano Ronaldo í gær.
Ronaldo var ekki í leikmannahópi Man Utd gegn Chelsea í 1-1 jafntefli eftir að hafa neitað að koma inná í 2-0 sigri á Tottenham í miðri viku.
Fernandes þekkir Ronaldo vel en þeir eru ekki aðeins samherjar hjá Man Utd heldur einnig í portúgalska landsliðinu.
Miðjumaðurinn vildi ekki tjá sig um stöðuna og segir að leikmenn liðsins séu að taka á málinu innanhúss.
,,Við tölum ekki um þetta. Við höldum þessu innanhúss. Við þurfum að gera það og enginn annar veit hvað við viljum eða hvað við hugsum,“ sagði Fernandes.
,,Það mikilvægasta fyrir alla og þar á meðal Cristiano er að liðið sé að vinna sér inn stig.“