Mason Mount, leikmaður Chelsea, viðurkennir að hann hafi vorkennt vini sínum Fikayo Tomori er liðið mætti AC Milan.
Tomori er leikmaður Milan og fyrrum leikmaður Chelsea en hann fékk rautt spjald í 2-0 tapi Milan á San Siro í Meistaradeildinni.
Tomori var rekinn af velli snemma leiks fyrir brot á Mount innan teigs en dómurinn hefur verið harðlega gagnrýndur.
Flestir eru sammála um að dómarinn hafi tekið ranga ákvörðun sem kostaði ítalska liðið mikið í viðureigninni.
,,Hann er augljóslega vinur minn. Ég hef þekkt Fik í langan tíma og ég fann til með honum á þessum tímapunkti,“ sagði Mount.
,,Ég var svo sár fyrir hans hönd. Ég er ekki sammála að þetta hafi verið rautt spjald. Var þetta vítaspyrna? Mögulega. Ég er hreinskilinn leikmaður og vil alltaf skora mark en hann hélt aðeins í mig. Ég vorkenni honum eftir þessa ákvörðun.“