Cristiano Ronaldo hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga eftir leik Manchester United við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni.
Ronaldo sást yfirgefa völlinn fyrir lokaflautið er Man Utd vann 2-0 sigur og er einnig ásakaður um að hafa neitað að koma inná.
Erik ten Hag, stjóri Man Utd, notar Ronaldo sparsamlega en hann var ráðinn stjóri liðsins í sumar.
Sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan hefur gagnrýnt vinnubrögð Ten Hag og segir hann vanvirða Ronaldo sem reyndi að komast burt frá félaginu í sumarglugganum.
Morgan bendir á að Ronaldo hafi verið markahæsti leikmaður Man Utd á síðasta tímabilinu og að hegðun Ten Hag sé til skammar.
,,Þetta er til skammar. Ten Hag ákveður enn og aftur að niðurlægja besta knattspyrnumann sögunnar og markahæsta leikmann liðsins á síðustu leiktíð,“ skrifaði Morgan.
,,Cristiano ætti að finna sér nýtt félag sem fyrst þar sem hann fær þá virðingu sem hann hefur unnið sér inn.“