Erling Haaland myndi ekki skora 60 mörk í fjórðu efstu deild Englands að sögn Paul Merson, fyrrum leikmanns Arsenal.
Merson var frábær miðjumaður á sínum tíma en hann telur að Haaland myndi ekki skora eins mörg mörk ef hann fengi ekki eins góða þjónustu.
Haaland fær auðvitað frábæra þjónustu hjá Manchester City og hefur skorað 15 mörk í 10 leikjum fyrir liðið til þessa og einnig þrjár þrennur.
Það er þó liðsfélögum Haaland að þakka að sögn Merson sem segir að Norðmaðurinn myndi ekki skora eins mikið í League 2, fjórðu efstu deild enska pýramídans.
,,Hann þarf þjónustu. Allir tala um hversu frábær hann er og hversu góður hann er að koma sér í stöður og hversu kraftmikill hann er,“ sagði Merson.
,,Ef hann fær boltann ekki á silfurfati þá skiptir ekki máli hversu góðar hreyfingar hann er með, hann fær ekki boltann. Hann myndi ekki skora 60 mörk í League 2 og ég segi það sem fyrrum stjóri Walsall.“