Nýlega var greint frá því að nokkur félög fylgdust með gangi mála hjá Edu, yfirmanni knattspyrnumála hjá Arsenal.
Brasilíumaðurinn, sem er einnig fyrrum leikmaður Arsenal, hefur vakið mikla athygli fyrir þátt sinn í endurnýjun liðsins.
Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og hefur verið á mikilli uppleið. Félagið og Edu hafa sett þá stefnu að semja mest megnis við yngri leikmenn og hækka virði þeirra hjá sér.
Það virðist ganga nokkuð vel, ef horft er á árangurinn það sem af er þessari leiktíð.
Arsenal mætir PSV í toppslag í riðlakeppni Evrópudeildarinnar nú klukkan 17. Í aðdraganda leiksins var Mikel Arteta, stjóri liðsins, spurður út í orðrómana um Edu.
„Hann þarf að svara þessari spurningu en ég get sagt ykkur að hann er algjörlega með hugann við Arsenal,“ svaraði Spánverjinn.