Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, fær dágóðan bónus ef liðið vinnur Heimsmeistaramótið í Katar síðar á árinu.
Mótið hefst 20. nóvember. England er í riðli með Bandaríkjunum, Íran og Wales.
Enska liðið fór alla leið í undanúrslit á HM í Rússlandi 2018 og í úrslitaleik Evrópumótsins í fyrra. Fari liðið alla leið og sigri HM í Katar fær Southgate fjórar milljónir punda í sinn vasa.
Til samanburðar hefði Southgate aðeins getað landað 1,5 milljónum punda fyrir sigur á HM 2018. Það er því til mikils að vinna.
Árslaun þjálfarans hjá enska landsliðinu eru sex milljónir punda. Er hann með samning út árið 2024.
Enska landsliðinu hefur ekki gengið vel síðasta árið eða svo. Southgate er því undir töluverðri pressu. Það er þó ljóst að gott gengi á HM yrði fljótt að slökkva í gagnrýnisröddum á þjálfarann.