Mygla hefur fundist undir gervigrasinu í knatthúsinu Miðgarði í Garðabæ. Þetta kom fram á fundi bæjarstjórnar í Garðabæ í morgun. Vísir vakti athygli á þessu í kjölfarið.
Vatn flæddi inn í knatthúsið í mars og er gert ráð fyrir að það sé ástæðan fyrir því að myglan hafi myndast.
Líklega þarf að skipta um gúmmíundirlag gervigrassins í knatthúsinu til að fjarlægja sveppinn sem hefur myndast þar undir. Þar til þá verður sveppnum haldið í skefjum með sótthreinsun.
„Beðið er frekari niðurstaðna um umfang vandans en reiknað er með að á einhverjum tímapunkti þurfi að fletta gervigrasi upp og skipta um gúmmíundirlag. Samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga verður jarðvegssveppnum haldið niðri með reglulegri sótthreinsun þangað til gúmmíundirlag verður fjarlægt. Fyrsta sótthreinsun fór fram laugardaginn 15. október. Regluleg sótthreinsun mun fara fram á þeim tíma sem ekki eru æfingar eða kennsla þar sem gervigrasið er og tryggt verður að öll ummerki sótthreinsunar verða horfin áður en notkun hefst á ný eftir hverja hreinsun,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar.
Miðgarður kostaði mikla fjármuni í byggingu. Talið er að heildarkostnaður verksins hafi verið um fjórir milljarðar íslenskra króna. Þetta er ein stærsta framkvæmd sem Garðabær hefur ráðist í.