Leikmenn Manchester United vilja meira eftir komu Erik ten Hag í sumar en hann tók við sem stjóri liðsins.
Þetta segir markmaðurinn David de Gea en Man Utd hefur byrjað allt í lagi undir Ten Hag og er í fimmta sæti deildarinnar.
Liðið byrjaði alls ekki vel undir stjórn Hollendingsins og tapaði gegn Brighton og Brentford en hefur svarað vel fyrir sig.
De Gea segir að það sé meira hungur í liðinu en áður og virðist vera mjög ánægður með störf Ten Hag til þessa.
,,Að mínu mati erum við að spila betur. Við erum að vinna mjög erfiða leiki og höldum hreinu,“ sagði De Gea.
,,Það er mjög mikilvægt og ég finn fyrir því. Leikmennirnir vilja meira í dag, við erum hungraðir og það er gott merki. Við þurfum að halda áfram að gera vel og berjast sem lið.“