Kylian Mbappe segir sögusagnir undanfarna daga um framtíð sína ekki sannar.
Mbappe hefur verið mikið í fréttum undanfarið. Frakkinn ungi er sagður vilja fara frá Paris Saint-Germain.
Þetta kom mörgum á óvart en Mbappe skrifaði undir nýjan samning í sumar.
„Ég er ekki búinn að biðja Paris Saint-Germain um að fá að fara í janúar,“ segir sóknarmaðurinn. „Ég er ekki reiður út í félagið. Sögurnar eru ekki sannar.“
Mbappe segist hafa verið jafnhissa á fréttum um sjálfan sig og aðrir.
„Fréttirnar sem birtust komu mér jafnmikið á óvart og öllum öðrum. Ég skildi þetta ekki.“
Mbappe hefur hvað helst verið orðaður við Real Madrid. Sem fyrr segir skrifaði hann þó undir risasamning við PSG síðasta sumar, sem færir honum líka völd á bakvið tjöldin hjá félaginu.