Joan Laporta, forseti Barcelona, var bálreiður í gær eftir leik liðsins við Real Madrid í La Liga og stormaði inn í búningsklefa dómaratríósins.
Það er mikið undir þegar þessi tvö lið eigast við í ‘El Clasico’ og spilar stolt stóra rullu en Real hafði betur að þessu sinni, 3-1 á heimavelli.
Laporta ræddi við dómara leiksins eftir lokaflautið en hann var óánægður með ýmsar ákvarðanir sem voru teknar í viðureigninni.
Barcelona vildi til að mynda fá vítaspyrnu í tapinu og taldi að Dani Carvajal hafi gerst brotlegur innan teigs en ekkert var dæmt.
Dómaratríóið hafði engan áhuga á að ræða við reiðan Laporta og var honum vísað burt eftir að hafa stormað inn í búningsklefa þeirra.
Laporta heimtaði svör frá dómurunum en án árangurs og játaði sig sigraðan, að minnsta kosti í bili.