Allt stefnir í að þeir Mikkel Qvist, Adam Örn Arnarsson og Omar Sowe yfirgefi herbúðir Breiðabliks þegar Besta deildin klárast.
Sowe er á láni hjá Breiðablik frá New York Red Bulls en hann hefur verið í aukahlutverki á þessu tímabili.
Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks verður gestur í sjónvarpsþætti 433.is á Hringbraut klukkan 20:00 í kvöld.
Óskar sagði í samtali við 433.is að allar líkur væru á að þessir þrír aðilar færu frá félaginu. Samningar Qvist og Adams eru að renna út.
Bæði Qvist og Adam gengu í raðir Breiðabliks fyrir þetta tímabil en Adam var lánaður til Leiknis á miðju sumri. Qvist sem kom til Breiðabliks frá KA hefur svo verið varaskeifa fyrir Damir Muminovic og Viktor Örn Margeirsson í hjarta varnarinnar.
Breiðablik er orðið Íslandsmeistari en liðið hefur tíu stiga forskot á toppi deildarinnar þegar tveir leikir eru eftir.