Andy Carroll, fyrrum leikmaður West Brom, skaut fast á Steve Bruce, fyrrum stjóra liðsins, fyrir leik liðsins um helgina.
Carroll er í dag leikmaður Reading í næst efstu deild en lék áður undir Bruce hjá West Brom þar sem hlutirnir gengu ekki upp.
Bruce var látinn fara frá WBA í vikunni eftir slæmt gengi og svaraði liðið brottrekstrinum með 2-0 útisigri á Carroll og félögum.
Fyrir leik var Carroll ansi harðorður í garð Bruce og telur að hans menn hefðu fengið þrjú frí stig ef hann væri enn við stjórnvölin hjá félaginu.
,,Það er alltaf sorglegt að sjá fólk fá sparkið. Sérstaklega þegar við hefðum fengið þrjú frí stig um helgina, það er leiðinlegt en svona er fótboltinn,“ sagði Carroll.
,,Þegar þú nærð ekki í úrslitin, þetta er viðskiptaheimur í lok dags. Þess vegna þarftu að fá strákana saman og leggja mikla vinnu í þetta sem stjóri. Þú verður að fá leikmennina til að vinna fyrir þig.“