Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði nýkrýndu Íslandsmeistaranna í Breiðablik var gestur í Íþróttavikunnni með Benna Bó þessa vikuna ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs.
Þar var meðal annars rætt um Skagamennina Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson, leikmenn FC Kaupmannahafnar en Höskuldur þekkir þá vel. Hákon Arnar var í byrjunarliði FCK á dögunum í Meistaradeild Evrópu þar sem liðið náði í stig gegn Manchester City á Parken.
„Fyrst og fremst eru þetta bara topp menn,“ hafði Höskuldur meðal annars að segja um Ísak og Hákon Arnar. „Þeir eru með lappirnar á jörðinni þrátt fyrir að vera komnir ansi langt miðað við aldur og fótboltalega séð eru þeir mjög spennandi.
Þeir eru ólíkir leikmenn. Hákon heldur gífurlega vel í boltann, er með lágan þyngdarpunkt og hugsar mjög hratt. Það gerir Ísak sömuleiðis og hann er með afbragðs sendingargetu.
Þeir tveir og fleiri ungir leikmenn í landsliðinu búa yfir gæðum til þess að leiða íslenska landsliðið til góðra tíma.“
Nánari umræðu um Hákon Arnar og Ísak má sjá í spilaranum hér fyrir neðan: