Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var ekki beint sáttur með dómgæsluna á Anfield í kvöld.
Liverpool vann 1-0 heimasigur á meisturunum þar sem Mohamed Salah skoraði eina markið í síðari hálfleik.
Fyrir það hafði Man City komist yfir en Anthony Taylor ákvað að dæma markið ógilt sem fór í taugarnar á Spánverjanum.
Brot var dæmt á Erling Haaland eftir að Phil Foden hafði skorað en dómurinn var umdeildur að mati Guardiola.
,,Dómarinn gekk að stjórunum og sagði: ‘Áfram með leikinn, áfram með leikinn.’ Það voru milljón brot í leiknum en eftir að við skorum ákveður hann loksins að dæma. Svona er Anfield,“ sagði Guardiola.
,,Við fengum nóg af tækifærum. Við fengum frábær tækifæri. Við vorum hugrakkir í leiknum og lékum eins og við áttum að gera. Ég hef yfir engu að kvarta eða sé ekki eftir neinu þegar kemur að okkar leik.“