Brasilíska goðsögnin Ronaldo er ekki stolt af hárgreiðslunni sem hann bauð upp á heimsmeistaramótinu árið 2002 er Brasilía vann keppnina með hann í fremstu víglínu.
Ronaldo var ekki heill heilsu á þessu heimsmeistaramóti og vissi að það yrði umræðuefni sem hann vildi losna við.
Sóknarmaðurinn ákvað því að skarta mjög skrautlegri hárgreiðslu, því miður fyrir mæður um allan heim.
Ronaldo viðurkennir að hann hafi fengið töluvert af gagnrýni frá foreldrum fyrir hárgreiðsluna en margir vildu vera eins og hann og það skiljanlega enda einn allra besti leikmaður heims á þessum tíma.
,,Ég varð fyrir meiðslum og það var eitthvað sem allir töluðu um. Ég ákvað að klippa á mér hárið og skilja þennan litla bút eftir. Ég kom á æfingar og allir sáu þessa skelfilegu hárgreiðslu,“ sagði Ronaldo.
,,Allir voru að tala um hárgreiðsluna og gleymdu meiðslunum. Ég gat verið rólegur og einbeitt mér að æfingunum. Ég er ekki stoltur af hárgreiðslunni sjálfri en þetta var góð leið til að breyta um umræðuefni.“
,,Mamma mín og milljón aðrar mömmur hata mig enn þann dag í dag. Ég hef hitt foreldra sem segja mér að börn þeirra hafi skartað sömu hárgreiðslu. Ég biðst afsökunar! Mér þykir fyrir því.“