Goðsögnin Gary Lineker vonar innilega að einhverjir fótboltamenn verði nógu hugrakkir í næsta mánuði og koma út úr skápnum á meðan HM í Katar fer fram.
Það væri stór yfirlýsing en samkynhneigð er glæpur í Katar þar sem fólk lifir ekki eins frjálsu lífi og á mörgum öðrum stöðum.
Það er því miður ekki algent að knattspyrnumenn komi út úr skápnum og fela flest allir samkynhneigð sína vegna ótta.
Lineker er fyrrum landsliðsmaður Englands en hann vonast til að fá gleðifréttir á meðan HM fer fram og vonar að einhver sé nógu hugrakkur til að taka skrefið.
,,Það væri frábært ef einn eða tveir af þeim myndu koma út úr skápnum á meðan HM gengur yfir. Það væri magnað,“ sagði Lineker.
,,Ég veit fyrir víst að einhverjir hafa verið nálægt því og íhugað að gera það. Það eru nokkrir sem ég veit um en það er ekki fyrir mig að segja hverjir þeir eru.“