Fabio Vieira, leikmaður Arsenal, rífur í lóðin þrisvar í viku til að komast í takt við aðra leikmenn ensku úrvalsldeildarinnar.
Vieira kom til Arsenal í sumar en hann hefur aðeins byrjað einn leik í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa spilað áður í Portúgal.
Vieira er ekki þekktur fyrir styrk sinn á vellinum en hann er að vinna í því og ætlar að gerast leikmaður sem er nothæfur í úrvalsdeildinni.
Hingað til hefur hann fengið tækifæri í Evrópudeildinni eftir að hafa kostað 30 milljónir punda frá Porto.
,,Þetta er öðruvísi á Englandi en í Portúgal. Deildin hér er sterkari líkamlega. Ég þarf að vinna í þessu og ég lofa að það sé það sem ég geri. Þrisvar í viku þá er ég í ræktinni,“ sagði Vieira.
,,Það er kominn tími á að hjálpa liðinu að komast á næsta stig, að leggja sig fram á hverjum degi því við erum í fyrsta sæti og þurfum að halda þessu gengi áfram.“