Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði nýkrýndu Íslandsmeistaranna í Breiðablik var gestur í Íþróttavikunnni með Benna Bó þessa vikuna. Þar var meðal annars rætt um síðasta tímabil þar sem Blikarnir þurftu að horfa á eftir Íslandsmeistaratitlinum til Víkinga.
Tap Breiðabliks í næstsíðustu umferð á útivelli gegn FH sá til þess að titillinn rann þeim endanlega úr greipum.
„Þetta var ein vika sem við gáfum okkur í að sleikja sárin, vorkenna okkur,“ segir Höskuldur um vonbrigði síðasta tímabils. „Svo varð þetta bara að þráhyggju sem snerist um að gera betur á næsta tímabili og klára þetta árið á eftir.“
Þar hafi reynsla og stjórnunarhæfileikar Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara liðsins komið að góðum notum.
„Óskar sagði nú stuttu eftir þetta eitthvað á þá leið að: ‘Ekki er gott að vinna allt of snemmt’ og að vissu leiti komst þetta á það stig að það var ekkert erfitt að hvetja menn áfram. Óskar kom strax auga á þetta.
Klárlega tækluðum við þessa stöðu af mikilli fagmennstu líkt og sást bara í sumar.“
Höskuldur segist hins vegar margoft hafa hugsað með sér hvort blaðran myndi springa.
„Ég er með bullandi imposter-syndrome og það er eiginlega bara ástæðan fyrir því hversu mikið ég legg á mig. Þessi efasemdarrödd er alltaf viðloðandi og margoft var ég að velta því fyrir mér hvort þetta gæti farið á versta veg.“
Nánari umræðu um Breiðablik og Höskuld má sjá í spilaranum hér fyrir neðan: