KR vildi nýta sér uppsagnarákvæði í samningi Kjartans Henry Finnbogasonar, með það í huga að semja við hann aftur. Greint er frá þessu á Vísi.
Kjartan, sem er leikmaður KR, birti í morgun brot úr atriði í þáttunum Steypustöðin, þar sem íþróttalýsandinn Hörður Magnússon segir „úff, kalt er það. Klara gefur kallinum fokk-merkið.“
Það var ekki ljóst vers hann var að vísa til. Miðað við nýjustu fregnir má þó ætla að hann hafi beint færslunni að KR, þar sem félagið ætlaði að nýta sér uppsagnarákvæðið.
Núgildandi samningur Kjartans við KR rennur út eftir næstu leiktíð. Það er þó óljóst hvar framtíð hans liggur eftir nýjustu fréttir.
Kjartan og Páll Kristjánsson, formaður meistaraflokksráðs KR, hafa ekki viljað tjá sig um málið í dag.