Þær Bjargey Sigurborg Ólafsson, María Lovísa Jónasdóttir og Nína Kolbrún Gylfadóttir hafa framlengt samninga sína við knattspyrnudeild Gróttu.
Bjargey og María skrifuðu undir til tveggja ára og Nína Kolbrún til eins árs.
Bjargey er 28 ára miðjumaður og hefur verið lykilleikmaður í liðinu síðustu ár. Hún spilaði sinn 100. leik fyrir Gróttu núna í september og hefur skorað í þeim 12 mörk.
María hefur sömuleiðis verið lykilleikmaður í liðinu þrátt fyrir ungan aldur. María er kantmaður og hefur spilað 65 leiki fyrir Gróttu í meistaraflokki, hún lék sinn fyrsta leik árið 2019, þá 16 ára. Hún hefur skorað 23 mörk fyrir Gróttu.
Nína Kolbrún kom til félagsins árið 2021 en hafði áður leikið með Val. Nína er 25 ára miðjumaður og var hún gríðarlega mikilvægur leikmaður Gróttuliðsins fyrri part sumars árið 2021 þegar liðið lék í Lengjudeildinni. Nína varð fyrir því óláni að slíta krossband síðasta sumar og hefur hún verið í stífri endurhæfingu síðan. Það var því mikið gleðiefni þegar Nína spilaði sínar fyrstu mínútur í 14 mánuði í síðasta leik Gróttu í september sl.