Nuno Espirito Santo er á blaði hjá Wolves yfir knattspyrnustjóra sem félagið vill ráða. Sky Sports segir frá þessu.
Þessar fregnir koma nokkuð á óvart, en aðeins eru sautján mánuðir síðan Nuno yfirgaf Wolves.
Hann var með Tottenham fyrstu mánuði síðasta tímabils en var látinn fara þaðan eftir dapurt gengi.
Bruno Lage var rekinn úr stjórastólnum hjá Wolves í byrjun mánaðar og er staðan því laus.
Julen Lopetegui, fyrrum stjóri Real Madrid og Sevilla, var efstur á blaði hjá Wolves. Hann hafnaði því hins vegar að taka við starfinu.
Því horfir Wolves aftur til Nuno, sem náði góðum árangri með liðið á sínum tíma. Portúgalinn kom því til að mynda upp í ensku úrvalsdeildina vorið 2018, þar sem liðið hefur verið allar götur síðan.