Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, vill ekki tjá sig um nýja Twitter-færslu Kjartans Henry Finnbogasonar að svo stöddu.
Kjartan, sem er leikmaður KR, birti í morgun brot úr atriði í þáttunum Steypustöðin, þar sem íþróttalýsandinn Hörður Magnússon segir „úff, kalt er það. Klara gefur kallinum fokk-merkið.“
Það er ekki á hreinu hvað hann meinar með þessu. Það má þó ætla að það tengist stöðu hans hjá KR. Kjartan hefur ekki fengið margar mínútur á vellinum í sumar.
Framherjinn er þó með samnning í Vesturbænum út næsta tímabil. Hann kom aftur til félagsins í fyrra frá Esbjerg.
Páll ræddi við 433.is fyrir skömmu en hann vildi ekki tjá sig um málefni Kjartans enn sem komið er.