Arnar Grétarsson mun taka við þjálfun karlaliðs Vals eftir tímabilið í Bestu deildinni. Þetta var opinberað í vikunni, en flestir höfðu þó fengið veður af fregnunum.
Ólafur Jóhannesson er þjálfari Vals, en verður það ekki á næsta tímabili.
Arnar Sveinn Geirsson, formaður leikmannasamtaka Íslands og fyrrum leikmaður Vals, gagnrýnir félagið fyrir að opinbera ráðninguna á nafna sínum á þessum tímapunkti.
„Ég er mjög lítið hrifinn af þessu. Ég geri mér grein fyrir því að það vissu þetta allir en af virðingu við Óla, bíddu bara þar til síðasti leikurinn er búinn og gerðu þetta daginn eftir, fyrst hann er ekki að taka við liðinu núna,“ segir Arnar í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.
„Ég er ekki hrifinn af þessu, mér finnst þetta ekki tímasetningin.“