Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ sendir kveðju til Íslendinga á Facebook síðu sinni í dag í aðdraganda kvennalandsleiksins í kvöld.
Það varð uppselt í ferð Icelandair til Portó í Portúgal í morgun. Stuðningsfólk íslenska kvennalandsliðsins hélt þá út í sólarhringsferð til að styðja stelpurnar okkar í leiknum mikilvæga í kvöld.
Ísland mætir Portúgal ytra í umspilsleik um sæti á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi næsta sumar í kvöld. Sigri liðið í venjulegum leiktíma eða í framlengingu er það komið með þátttökurétt á mótið.
„Um leið og ég óska Blikum til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, Víkingum með bikarinn og Völsurum með bæði, þá koma hér þakklætis-kveðjur frá Portúgal,“ skrifar formaðurinn á Facebook.
„Rétt í þessu er full vél að lenda hér í Porto, full af íslensku stuðningsfólki, aðrir koma með öðrum leiðum svo það verða um 250 Íslendingar á leiknum í kvöld. Svo veit ég að margir á Íslandi eru í bláu í dag og ég bara veit að stuðninginn heima er frábær. Þetta er ekki sjálfgefið og við erum innilega þakklát.“
„Takk bakhjarlar KSÍ
Takk Icelandair (sem er líka bakhjarl)
Takk Íslendingar og annað stuðningsfólk,“ segir Vanda.