Íslenska kvennalandsliðið fer ekki á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi á næsta ári. Þetta varð ljóst með tapi í Portúgal í umspili um sæti á mótinu ytra í kvöld.
Fyrri hálfleikur var nokkuð kaflaskiptur. Hann var nokkuð jafn til að byrja með.
Svo tók við kafli þar sem heimakonur höfðu yfirhöndina. Íslenska liðið fékk lítinn tíma á boltanum og voru Portúgalar hættulegri fram á við.
Ísland tók þó við sér þegar leið á hálfleikinn og síðustu tíu mínútur hans fékk liðið nokkur álitleg færi til að skora. Allt kom þó fyrir ekki.
Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn betur. Í upphafi hans kom Sveindís Jane Jónsdóttir boltanum í netið. Markið var hins vegar dæmt af þar sem Guðný Árnadóttir gerðist sek um peysutog í aðdraganda þess.
Áföllin dundu yfir stelpurnar okkar í kjölfarið. Portúgal fór í sókn hinum og megin og fékk Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir dæmt á sig víti og rautt spjald. Dómurinn var afar umdeildur.
Carole Costa fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Íslenska liðið svaraði mótlætinu hins vegar afar vel. Aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Glódís Perla Viggósdóttir með flottu skallamarki. Staðan jöfn á ný eftir klukkutíma leik.
Ísland spilaði mjög vel úr spilum sínum manni færri í kjölfarið, hélt portúgalska liðinu vel í skefjum og var ekki síðri aðilinn á vellinum.
Heimakonur ógnuðu töluvert á lokamínútum venjulegs leiktíma og í uppbótartíma. Ekki komu þær boltanum þó í markið.
Staðan eftir venjulegan leiktíma 1-1 og því var gripið til framlengingar.
Þar var eðlilega komin mikil þreyta í tíu leikmenn íslenska liðsins og á annari mínútu hennar skoraði Diana Silva fyrir Portúgal.
Tiatiana Pinto átti svo eftir að kom Portúgal í 3-1 snemma í seinni hálfleik framlengingarinnar. Franciska Nazareth innsiglaði svo 4-1 sigur liðsins.
Ljóst er að HM-draumur íslenska liðsins er úti.