Lionel Messi, goðsögn Barcelona, er ekki saklaus á velli segir fyrrum markvörður Real Madrid, Jerzy Dudek.
Dudek var um skeið varamarkvörður Real og tók þátt í El Clasico viðureignunum þar sem þessi tvö stórlið eigast við.
Messi þykir mjög vinalegur og rólegur utan vallar en samkvæmt Dudek er hann ansi blóðheitur eftir upphafsflautið.
Pólverjinn segir að Messi hafi verið duglegur að láta leikmenn Real heyra það og var lítið að passa upp á orðavalið.
,,Hann ögraði okkur mikið, sem og leikmenn Barcelona og stjóri þeirra Pep Guardiola,“ sagði Dudek.
,,Þeir voru alltaf tilbúnir að pirra okkur og oft tókst það fullkomlega. Ég hef nú þegar heyrt Messi segja mjög dónalega hluti við Sergio Ramos og Pepe, það er ekki hægt að ímynda sér þetta.“
,,Ímyndið ykkur hvað getur komið út úr munninum á manneskju sem er svo róleg og vinaleg.“