Glufa í myndbandsdómgæslunni á Englandi, VAR, varð til þess að mark Gabriel Martinelli fyrir Arsenal gegn Liverpool var leyft að standa í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Martinelli kom Arsenal yfir strax á fyrstu mínútu leiksins. Í aðdraganda marksins héldu margir að Bukayo Saka hafi verið rangstæður og markinu yrði því ekki leyft að standa.
Allt kom hins vegar fyrir ekki og markið stóð. Arsenal komið 1-0 yfir.
Nú hefur það hins vegar verið opinberað að VAR hefði aldrei getað breytt dómnum sem upphaflega var kveðinn á vellinum. Það er vegna þess að engin af myndavélum vallarins sá Saka akkúrat á þeirri stundu sem Ben White sendi boltann í áttina að honum.
Það er þó ekki þar með sagt að dómurinn hafi verið rangur. Það er enn matsatriði. Dómarinn á vellinum lét markið í hið minnsta standa.
Leiknum lauk með 3-2 sigri Arsenal, sem er á toppi deildarinnar. Liverpool er í vandræðum og er í tíunda sæti.