Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var í stuði á blaðamannafundi í gær eftir leik liðsins við Southampton í ensku úrvalsdeildinni.
Guardiola ræddi sóknarmanninn Erling Haaland sem skoraði eitt mark í 4-0 sigri á Etihad vellinum.
Það hefur ekki verið of algengt að Haaland skori eitt mark í leikjum City og skoraði til að mynda þrjár þrennur í röð.
Guardiola grínaðist með að hann væri reiður út í Norðmanninn eftir leikinn í gær en aðrir hafa grínast með að það eigi að reka framherjann burt því hann sé einfaldlega of góður fyrir deildina.
,,Ég er svo reiður út hann – hann skoraði ekki þrjú mörk þess vegna er verið að tala um að sparka honum úr úrvalsdeildinni!“ grínaðist Guardiola.
,,Það er búist við svo miklu af honum og fólk býst við að hann skori þrjú eða fjögur mörk í leik. Að lokum þá náði hann að skora og hjálpaði okkur aftur.“