Fabio Capello, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, var harðorður í garð varnarmannsins Kalidou Koulibaly sem spilar með Chelsea í gær.
Koulibaly hefur ekki farið of vel af stað með Chelsea eftir að hafa skrifað undir samning í sumarglugganum.
Miðvörðurinn var um tíma einn besti varnarmaður Ítalíu en hann vakti athygli með frammistöðu sinni fyrir Napoli.
Chelsea vann AC Milan 3-0 í Meistaradeildinni í gær og var Capello alls ekki hrifinn af spilamennsku Koulibaly.
,,Hjá Chelsea þá er hann ekki með neinn persónuleika,“ sagði Capello í samtali við Sky Sports á Ítalíu.
,,Þegar hann fær boltann þá hikar hann. Hann er ekki fljótur í að gefa boltann, hann gerir ekki það sem hann gerði hjá Napoli.“
,,Hjá Napoli þá var það hann sem stjórnaði, hann kom fram völlinn, gaf langar sendingar og nú er hann með boltann á milli fótanna. Hann veit ekki hvern hann á að gefa á og gefur á einhvern sem er við hliðina á honum.“
,,Hann er að koma mér á óvart. Ég hélt að hann yrði mjög mikilvægur hjá Chelsea um leið en eins og er þá er hann ekki að láta eins og hann sjálfur.“