ÍA hefur fengið leyfi frá Vestra til að ræða við Jón Þór Hauksson um að taka við þjálfun liðsins. Þetta staðfesti Eggert Ingólfur Herbertsson formaður knattspyrnufélags ÍA við 433.is.
„Við fengum leyfi frá Vestra og þetta er bara í ferli,“ sagði Eggert í samtali við 433.is. Jón Þór tók við Vestra á síðustu leiktíð og vann frábært starf þar í Lengjudeildinni.
Samkvæmt heimildum 433.is hafa viðræður ÍA og Jóns Þórs gengið vel en eftir á að klára samkomulag milli ÍA og Vestra. Líklegt er að Jón Þór stígi skrefið upp í efstu deild.
Jóhannes Karl Guðjónsson lét af störfum hjá ÍA í síðustu viku til að gerast aðstoðarþjálfari landsliðsins.
Jón Þór stýrði ÍA um nokkurt skeið árið 2017 þegar Gunnlaugur Jónsson lét af störfum. Hann gerðist svo aðstoðarþjálfari Stjörnunnar og tók svo við kvennalandsliði Íslands.
Jón Þór tók við Vestra síðasta sumar og kom liðinu í undanúrslit bikarsins. Allt stefnir í að hann snúi á heimaslóðir en Jón Þór og fjölskylda hans er búsett á Akranesi.