Leikmaðurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson er á leið til Svíþjóðar og mun yfirgefa herbúðir Keflavíkur.
Frá þessu greindi Kristján Óli Sigurðsson í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin í dag.
Rúnar er mikilvægur hlekkur í liði Keflvíkinga en hann lék 17 leiki í sumar og skoraði í þeim tvö mörk í deild. Rúnar er vinstri bakvörður sem spilaði sinn fyrsta A landsleik í maí á síðasta ári.
Hann hefur allan sinn feril leikið með Keflavík en Rúnar er fæddur árið 1999 og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2018.
Srdjan Tufegdzic fyrrum þjálfari KA, Grindavíkur og aðstoðarþjálfari Vals er þjálfari Öster og hafði áhuga á að fá leikmanninn til félagsins.
Öster er í næst efstu deild í Svíþjóð og hafnaði í fimmta sæti á síðustu leiktíð.