Albert Guðmundsson er ekki í landsliðshópi Íslands fyrir leikinn gegn Venesúela í kvöld og Albaníu á þriðjudag.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari tjáði sig um ákvörðunina á blaðamannafundi fyrir tæpri viku.
„Ég var mjög óánægður og svekktur með hugarfar Alberts í síðasta glugga. Fyrir mér á að vera mikill heiður að vera í landsliðinu og það kallar á 100 prósent hugarfar. Þú ert annað hvort hundrað prósent með okkur í þessu eða ekki,“ sagði Arnar.
Hörður Magnússon, íþróttalýsndi á Viaplay, ræðir við Fréttablaðið í dag, þar sem hann fer meðal annars yfir ákvörðun Arnars varðandi Albert.
„Hann er kannski of hreinskilinn stundum, ég hefði kannski látið það vera að einhverju leyti að segja það sem hann sagði. Mér fannst hann svolítið brútal, aðeins of mikið. Ég hefði frekar sagt að Albert væri ekki í myndinni núna en Arnar er hreinskilinn maður. Það ber að virða það, hann var ekki að fara í kringum heitan grautinn þarna,“ segir Hörður um ákvörðun Arnars.
Nánar er rætt við Hörð um verkefni landsliðsins í heild í Fréttablaðinu.