Fyrri leikurinn fer fram hér heima á föstudag en seinni leikurinn ytra fjórum dögum síðar.
„Þetta leggst mjög vel í mig. Það er alltaf gaman að hitta strákana og spila stóra fótboltaleiki,“ segir Sævar við 433.is á landsliðsæfingu í dag.
Sóknarmaðurinn segir að krefjandi verkefni sé framundan.
„Þetta verður gríðarlega erfitt. Þeir eru mjög líkamlega sterkir, en við erum búnir að bæta okkur í hverjum einasta glugga. Ég held að það verði bara eitt mark á milli jafnvel í báðum leikjunum. Heimaleikurinn er klárlega mikilvægur. Ég held að við munum spila eins og í síðasta glugga, pressa og vera með læti, koma þeim á óvart.“
Sem fyrr segir er Sævar leikmaður danska úrvalsdeildarfélagsins Lyngby. Liðið er nýliði í deildinni eftir að hafa farið upp úr B-deild í fyrra. Lyngby á enn eftir að vinna leik á tímabilinu og er á botninum.
„Stigasöfnunin hefur augljóslega ekki verið nógu góð. Þegar maður er ekki að vinna fótboltaleiki fer sjálfstraustið og stemningin í klefanum aðeins niður á við, en þetta er mjög sterkur hópur og við höfum allir trú á að við séum að fara að safna stigum núna. Það er kannski fínt að fá smá pásu núna, flestir fá smá pásu frá fótbolta. Í október erum við að fara að fá heimaleiki í Lyngby, sem er mjög sterkt. Þegar fyrsti sigurinn kemur, þá er ekki að spyrja að þessu.“
Sævar var spurður út í muninn á efstu og næstefstu deild í Danmörku.
„Það eru gæðameiri einstaklingar, maður finnur að ef maður gerir mistök er manni refsað. Líkamlega er þetta svipað, B-deildin í Danmörku er mjög fín og atvinnumannadeild líka.“
Það leið aðeins ár á milli þess að Sævar var seldur til Lyngby frá Leikni Reykjavík og þar til hann var byrjaður að spila í úrvalsdeild með félaginu. Hann segir síðustu ár hafa verið draumi líkust.
„Leiknir er einn minnsti klúbburinn á höfuðborgarsvæðinu þannig þetta var hrikalega sterkt. Maður bjóst svo sem ekkert við því að fara beint upp. Síðustu 2-3 ár í fótboltanum eru búin að vera frábær, fara upp með Leikni, halda okkur uppi, fara í Lyngby og svo í Superliguna núna. Þetta er búið að vera draumi líkast, en nú í fyrsta sinn er maður að lenda í alvöru áskorun. Það er bara spennandi að takast á við það. Að spila í þessari deild, ég bjóst ekki við þessu fyrir ári síðan.“
Alfreð Finnbogason gekk í raðir Lyngby á dögunum. Hann er að koma sér af stað eftir meiðsli.
„Það er geðveikt. Hann er algjör toppmaður og allir í klefanum elska hann. Þetta er stór karakter en auðmjúkur, miðað við þessa ferilskrá. Ég mun læra mikið af honum á næstu mánuðum, hann mun hjálpa mér mikið. Hann er að hjálpa okkur mikið nú þegar. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig hann verður þegar hann kemst í gang. Maður sér bara gæðin á æfingum,“ segir Sævar Atli Magnússon.