Síðasti þáttur sumarsins af markaþætti Lenjudeildarinnar fór fram í gær. Þar gerðu sérfræðingarnir Hörður Snævar Jónsson og Hrafnkell Freyr Helgason upp sumarið í deildinni.
Þar var með annars valinn besti leikmaður deildarinnar í ár, sem og besti þjálfarinn.
Það þarf lítið að koma á óvart að báðir koma úr röðum Fylkis, öruggum sigurvegara deildarinnar.
Leikmaður ársins var valinn markvörðurinn Ólafur Kristófer Helgason. Hann hélt átta sinnum hreinu á tímabilinu og steig stór skref fram á við á ferli sínum, en hann er aðeins 19 ára gamall.
„Mér fannst erfitt að velja markvörð sem leikmann ársins,“ segir Hrafnkell Freyr Helgason sérfræðingur léttur í þættinum.„Hann á þetta skilið, var frábær í allt sumar,“ bætir hann við.
Þá var Rúnar Páll Sigmundsson valinn þjálfari ársins. Undir hans stjórn vann Fylkir til að mynda tólf leiki í röð í Lengjudeildinni í sumar.