Kylian Mbappe neitar að taka þátt í liðsmyndatöku franska landsliðsins, sem er í samstarfi við helstu styrktaraðila franska knattspyrnusambandsins. Fjallað er um málið í frönskum fjölmiðlum.
Þessi ákvörðun kemur í kjölfar þess að franska knattspyrnusambandið sagðist ekki eiga í hyggju að gefa leikmönnum meiri völd í tengslum við ímyndarétt sinn. Leikmaðurinn vill hafa meira að segja um ímyndarétt sinn og vill ekki auglýsa helstu styrktaraðila franska landsliðsins.
Ástæður þess að Mbappe vill ekki auglýsa mörg þeirra fyrirtækja sem eru í samstarfi við franska landsliðið eru ekki af fjárhagslegum toga. Mbappe vill einfaldlega ekki auglýsa veðmálafyrirtæki eða skyndibitakeðjur þar sem honum líður ekki vel með það.
Myndatakan á að fara fram á morgun.
Frakkland á leik gegn Austurríki í París á fimmtudag. Eftir það ferðast liðið til Kaupmannahafnar og mætir Dönum á Parken.