Mykhaylo Mudryk hjá Shakhtar Donetsk er einn mest spennandi leikmaður Evrópu um þessar mundir.
Það er nokkuð ljóst að þessi 21 árs gamli kantmaður fer frá Shakhtar fyrr eða síðar. Nú segir ítalski fjölmiðillinn Calciomercato frá því að Arsenal og Liverpool muni bæði reyna að krækja í leikmanninn í janúar.
Mudryk hefur farið vel af stað á þessari leiktíð og til að mynda skorað tvö mörk í tveimur leikjum í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu það sem af er. Keppnin er stór auglýsingagluggi og hefur frammistaða hans augljóslega vakið mikla athygli.
Mudryk var nálægt því að fara til Brentford í janúar en svo fór ekki. Svo gæti hins vegar farið að hann gangi til liðs við töluvert stærra félag nú ári síðar.
Auk Arsenal og Liverpool er Sevilla sagt fylgjast með gangi mála hjá Mudryk.
Mudryk á fimm A-landsleiki að baki fyrir hönd Úkraínu.