Paul Merson, fyrrum leikmaður Arsenal, er undrandi yfir því að Luke Shaw hafi verið valinn í enska landsliðshópinn fyrir komandi verkefni.
Shaw var valinn í 28 manna hóp Englands fyrir verkefni í Þjóðadeildinni gegn bæði Ítalíu og Þýskalandi.
Shaw var valinn ásamt liðsfélaga sínum hjá Manchester United, Harry Maguire, en þeir hafa báðir ekki verið sannfærandi í byrjun tímabils.
Báðir leikmenn fá ekki reglulega að spila á Old Trafford en Merson er meira hissa á því að Shaw hafi verið valinn frekar en Maguire.
Merson telur að valið á Maguire sé skiljanlegt en ekki Shaw sem hefur tekið þátt í tveimur deildarleikjum til þessa.
,,Ég var ekki hissa yfir valinu á Maguire, hann er stór hluti af enska liðinu og hvernig þeir spila undir Gareth Southgate,“ sagði Merson.
,,Ég var hins vegar steinhissa yfir valinu á Luke Shaw ef ég á að vera hreinskilinn. Miðað við alla þessa bakverði sem við eigum, ég var hissa en ekki með Maguire.“