Markmaðurinn Jay Gorter lenti í ömurlegu atviki fyrr í þessari viku fyrir U21 landsliðsval Hollands.
Blaðamaðurinn Mike Verweij greinir frá þessu máli en hann vinnur fyrir De Telegraaf sem er einn stærsti miðill Hollands.
Sierd van de Berg, landsliðsþjálfari U21 liðs Hollands, reyndi að ná í Gorter í vikunni en án árangurs.
Van den Berg sendi markmanninum ítrekað skilaboð á WhatsApp en fékk engin svör og ákvað að lokum að velja Gorter ekki í hópinn.
Móðir Gorter veiktist hins vegar mikið á dögunum og var hann að sinna öðrum málum er skilaboðin bárust.
Gorter er 22 ára gamall en hann er á mála hjá Ajax og á að baki einn leik fyrir aðallið félagsins.
Samkvæmt Verweij þá bjóst Van den Berg við mun fljótari svörum frá Gorter og ákvað að lokum að gefast upp sem varð til þess að hann var ekki valinn.
Landsliðsþjálfarinn vissi af veikindum móður leikmannsins en vildi fá einhver svör sem því miður varð ekki raunin að lokum og voru aðrir menn valdir í hópinn.