Sadio Mane, leikmaður Bayern Munchen, er mikið í umræðunni í Þýskalandi þessa stundina en gengi liðsins hefur ekki verið frábært til þessa.
Bayern tapaði 1-0 gegn Augsburg í gær og hefur nú ekki unnið leik í síðustu fjórum umferðum.
Mane er í raun blóraböggullinn en hann kom til Bayern í sumar og átti að leysa Robert Lewandowski af hólmi sem fór til Barcelona.
Mane hefur skorað þrjú mörk í sjö leikjum í Bundesligunni en virðist ekki finna sig í því hlutverki sem hann spilar í Þýskalandi.
Talað er um að Bayern sé að nota Mane vitlaust og að hann sé betri á vængnum frekar en fyrir miðju.
Mane skoraði 120 mörk í 269 leikjum fyrir Liverpool á sex árum og 23 af þeim komu á síðustu leiktíð.
Stuðningsmenn Bayern hafa töluverðar áhyggjur af gangi mála og telja að Mane sem fremsti maður sé ekki lausnin við brottför Lewandowski.
Hann var langt frá því að vera sannfærandi í tapinu í gær og komst lítið í takt við leikinn eins og hefur áður gerst á tímabilinu.