Heimir Hallgrímsson hefur verið staðfestur sem nýr landsliðsþjálfari Jamaíka en það gerðist á blaðamannafundi í kvöld.
Heimir hefur verið án starfs í einhvern tíma en vann hér heima í sumar og hjálpaði ÍBV í Bestu deild karla.
Hann þjálfaði síðast lið Al-Arabi í Katar frá 2018 til 2021 en er auðvitað þekktastur fyrir tíma sinn með íslenska landsliðinu.
Heimir starfaði fyrst sem aðstoðarþjálfari hjá landsliðinu frá 2011 til 2013 og tók við aðalliðinu í kjölfarið til fimm ára.
Jamaíka er með marga skemmtilega leikmenn í sínum röðum og má nefna þá Leon Bailey og Michail Antonio sem leika í ensku úrvalsdeildinni.
Athygli vekur að Heimir er strax búinn að velja fyrirliða Jamaíka, Andre Blake, í sinn fyrsta landsliðshóp.
Blake var ekki valinn í síðasta hóp Jamaíka en hann komst í fréttirnar fyri harða gagnrýni í garð knattspyrnusambands Jamaíka.
Blake kvartaði á meðal annars yfir slöku skipulagi og lélegri umgjörð í kringum liðið en markmaðurinn virðist þó ætla að gefa verkefninu tækifæri undir stjórn Heimis.