Vincent Kompany, knattspyrnustjóri Burnley og Manchester City-goðsögn, ræddi Jóhann Berg Guðmundsson, leikmann Burnley, í viðtali við BBC.
Jóhann Berg hefur verið á mála hjá Burnley síðan 2016. Hann hefur mikið glímt við meiðsli en sýnt hvers megnugur hann er þess á milli.
„Ég get tengt við Jóhann því ég var nokkrum sinnum í hans stöðu á ferlinum. Ég get tengt við það sem hann hefur gengið í gegnum,“ segir Kompany, sem einnig glímdi við töluverð meiðsli á sínum leikmannaferli.
„Ég hef sagt það áður en heill Jóhann er í raun ekki leikmaður sem við eigum efni á. Hann er mjög góður leikmaður. Við viljum bara halda honum heilum og glöðum.“
Þessi fyrrum fyrirliði sagði að Ashley Westwood, sem einnig er meiddur og Jóhann geti reynst liðinu dýrmætir.
„Þegar þeir koma til baka eru þeir nokkurs konar jókerar.“
Kompany segir líf fótboltamannsins geta verið erfitt í meiðslum.
„Þegar þú færð líkamann ekki til að gera það sem þú vilt að hann geri getur það verið mjög erfitt.“
Burnley leikur í ensku B-deildinni, eftir að hafa fallið úr efstu deild á síðustu leiktíð.