Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, var á blaðamannafundi í Laugardal í dag spurður út í son sinn, Viktor Nóa Viðarsson.
Viktor leikur með unglingaliðum Gent en á sex leiki að baki fyrir U-15 ára landslið Belgíu.
Arnar var spurður út í það hvort það kæmi til greina að Viktor spilaði fyrir Íslands hönd í framtíðinni.
„Ég er mjög rólegur yfir þessu öllu saman. Hann er Belgi og mamma hans er Belgi. Hann býr í Belgíu,“ sagði Arnar.
Hann vill ekki hugsa út í þessi mál strax.
„Við skulum leyfa börnunum að vera börn og svo kemur í ljós hvar hver endar.“
„Fyrir mér er mikilvægast að hafa gaman í íþróttum þegar þú ert fimmtán ára. Hvort þeir verði landsliðs- eða atvinnumenn í framtíðinni, það getur ekki verið það mikilvægast í lífinu.“