Diego Costa, leikmaður Wolves, gæti óvænt spilað sinn fyrsta leik fyrir félagið strax á laugardag.
Frá þessu greina enskir miðlar en Costa samdi við Wolves á dögunum og kemur á frjálsri sölu.
Costa þekkir vel til ensku úrvalsdeildarinnar en hann lék áður með Chelsea og var duglegur að skora mörk þar.
Búist var við að Costa myndi taka sinn tíma í að komast í form en miðað við nýjustu fregnir er hann í góðu standi og gæti leikið um helgina.
Wolves fær alls ekki auðvelt verkefni á laugardag og spilar við Englandsmeistarana í Manchester City.
Costa er 33 ára gamall og varaði stuðningsmenn Wolves við því að það myndi taka hann tvær til þrjár vikur að komast í sitt besta form.
Hann hefur ekki spilað keppnisleik síðan í janúar en gæti óvænt spilað fyrsta leikinn gegn Man City sem væri skemmtilegt áhorf fyrir knattspyrnuaðdáendur.