Arsene Wenger, sem var stjóri Arsenal frá 1996 til 2018, hefur fulla trú á sínu fyrrum liði á þessari leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.
Arsenal er sem stendur í efsta sæti deildarinnar eftir sex umferðir.
Wenger hefur fulla trú á að Arsenal geti náð einu af fjórum efstu sætunum, sem veiti þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Þá útilokar hann ekki að liðið geti barist um sjálfan Englandsmeistaratitilinn.
„Það er ekkert lið með algjöra yfirburði á þessari leiktíð,“ segir Wenger.
„Arsenal getur þetta, allavega verið í topp fjórum en það er ekki hægt að útiloka að þeir berjist um titilinn.“
Ummælin hafa vakið athygli. Margir spá því að Arsenal geti náð Meistaradeildarsæti á þessari leiktíð en fæstir spá liðinu sjálfum titlinum.
Wenger starfar í dag hjá FIFA við framþróun heimsfótboltans.